Alheimsmót skáta!
Hingað til hefur mótið verið frábært, og ég efast ekki um að það verði það áfram! Dagskráin er búin að vera fjölbreytt hjá mér og veðrið dásamlegt, en kannski aðeins of heitt á köflum.
Ég byrjaði mótið á að skoða ‘miðbæinn’, kaupa mér minjagripi og prófa alls konar þrautir og leiki. Minjagripabúðirnar hérna eru risa stórar, og það eru miklar líkur á að allir finni eitthvað við sitt hæfi, hvort sem að það er bolli, sokkar, merki eða bangsar! Það er allt til!
Eftir það hef ég farið í klifur, heimsótt eftir líkingu Brownsea eyju, en þar fór fyrsta skátaútilegan fram, og svo kynnti ég mér tuttugustu og fyrstu öldina, og fékk þar m.a. að keyra róbot!
Brownsea eyja var mjög áhugaverð, en ég fékk því miður ekki að vera þar lengi þar sem að þau voru að loka eyjunni vegna hátíðarhalda þegar við vorum þarna. En ég hlustaði á Baden Powell, stofnanda skátahreyfingarinnar, tala um líf sitt og afhverju hann stofnaði skátana. Svo fengum við kennslu um hvernig við eigum að verja okkur með prikum sem skátar á fornöld voru skikkaðir til að ganga með, en sú tækni kallast The Robin Hood drill.
Að kynnast þessari öld sem við lifum á í gegnum tækni er frábær upplifun. Í 21. öldinni fengum við að prófa að keyra róbot, og áttum til dæmis að taka upp keilur með honum og setja í þar til gert hólf. Svo byggðum við Da Vinci brú, en hún er samansett úr timbri einu og saman. Hvorki lím né naglar hjálpa til við að halda henni uppi, aðeins þyngdaraflið og viðnám! Við fórum nokkur saman í þetta verkefni og það gekk alveg ótrúlega vel, og meira að segja þá fengum við að ganga yfir brúnna sem við byggðum.
Sennilega það magnaðasta sem ég hef gert á þessu móti var þó að tala við geimfara sem er staddur í alþjóðlegu geimstöðinni! Við vorum nokkur úr Global ambassador verkefninu sem fengum það tækifæri, og við spurðum hann meðal annars út í það hvernig hann heldur sambandi við fjölskylduna sína, hvað hann gerir á daginn og hvað er á döfinni hjá NASA. Þetta var bara ótrúleg upplifun, og klárlega það sem stendur mest upp úr af mótinu eins og er!